01. RECURSIVE
Útskriftarverkefni mitt úr Listaháskólanum var Recursive: tilraun til þess að vinna letur úr algóritmískum kerfum náttúrunnar. Við eigum það til að horfa til náttúrunnar og finnast hún óútreiknanleg og tilviljanakennd. Tré vex í allar áttir og greinarnar teygja sig að því er virðist bara eitthvert. Þegar betur er að gáð, kemur í ljós að vöxturinn fylgir ströngum reglum sem endurtaka sig aftur og aftur. Ný grein líkir eftir þeirri sem kom á undan.
Hugmyndin um L-kerfi var sett fram árið 1968 af Aristid Lindenmayer sem leið til að formfesta mynstur í vexti plantna. Í þessu verkefni nota ég skapandi forritun til þess að skapa stað þar sem letur er framleitt (e. generated) eftir reglum L-kerfis í rauntíma við notkun. Rétt eins og sama rósin sprettur aldrei aftur vex hver bókstafur á nýjan hátt í hvert skipti sem hann birtist og endurtekur sig aldrei að fullu.